Íslenskt lífeldsneyti

Þjóðir heims horfa í auknum mæli til framleiðslu lífeldsneytis í stað jarðefnaeldsneytis. Verkefnið Lífeldsneyti miðar af því að skoða mismunandi leiðir og þróa tækni til innlendrar lífeldsneytisframleiðslu úr íslensku hráefni. Verkáætlunin gerir ráð fyrir umfangsmiklum rannsóknum við framleiðslu lífeldneytis úr lífamassa af ýmsum toga. Lífmassinn sem unnið er úr í verkefninu fæst sem úrgangur frá heimilum, iðnaði og landbúnaði.¹

Nokkrar gerði lífeldsneytis eru í notkun í heiminum í dag og mismunandi eftir landsvæðum hvaða tegund þykir hagfelldast að framleiða og nýta. Verkefnið Lífeldsneyti miðast við rannsóknir á möguleikum okkar Íslendinga til að framleiða etanól (CH3-CH3-OH), FT-dísil, metan( CH4), metanól ( CH3-OH), tvímetýleter (DME, CH3-O-CH3) og vetni (H).

Verkefnið Lífeldsneyti hófst árið 2010, spannar þrjú ár og er skipt upp í 9 verkþætti:

Verkþáttur 1.0. Hráefni sem nýta má til framleiðslu á lífeldsneyti. Lokið
Verkþáttur 2.0. Tegundir lífeldsneytis sem framleitt er á Íslandi úr mismunandi hráefni. Lokið
Verkþáttur 3.0. Formeðhöndlun á lífmassa. Lokið
Verkþáttur 4.1. Líf-etanól.
Verkþáttur 4.2. Líf-vetni og Líf-metan (Nútíma-metan)
Verkþáttur 4.3. Gösun og framleiðsla á FT-dísilolíu.
Verkþáttur 5.0. Útreikningar á mögulegri framleiðslu lífeldsneytis á Íslandi. Lokið
Verkþáttur 6.0. Frumhönnun framleiðsluferla fyrir lífetanól, lífdísel og lífmetan.
Verkþáttur 7.0. Hagkvæmniathugun framleiðsluferla fyrir lífetanól, lífdísel og lífmetan.
Verkþáttur 8.0. Verkefnastjórnun.
Verkþáttur 9.0. Kynning og opnun heimasíðu

                    
                                                   
Verkefninu er skipt í þrjá meginþætti: ²

Í fyrsta lagi að meta hvaða tegundir lífmassa, sem falla til eða hægt er að rækta hérlendis henta til framleiðslu á lífeldsneyti sem og hvaða tækni, sem nú þegar er til staðar, gæfi hámarks heimtur eldsneytis úr ólíkum gerðum hráefnis.

Í öðru lagi verða gerðar tilraunir með framleiðslu á lífeldsneyti úr völdu hráefni. Áhersla verður bæði lögð á líffræðilegar sem og eðlis- og efnafræðilegar framleiðsluaðferðir. Þróuð verður notkun hitakærra örvera til metan- og vetnisframleiðslu auk notkunar tæknierfðaverkfræðinnar til farmleiðslu annarrar kynslóðar etanóls úr flóknum lífmassa. Einnig verður könnuð gösun sorps og framleiðsla FT eldsneytis úr syngasi sem þannig fæst.

Í þriðja lagi verður lagt mat á magn lífeldsneytis sem hægt er að framleiða úr innlendum lífmassa á Íslandi næstu áratugi. Spáin verður borin við nýjustu eldsneytisspá Orkuspánefndar og þannig lagt mat á mögulegt hlutfalli innlends lífræns eldsneytis af heildareldsneytisnotkun Íslendinga í framtíðinni. Einnig verður lagt mat á samdrátt losunar gróðurhúsalofttegunda við aukna framleiðslu/notkun lífeldsneytis. Í ljósi niðurstaðna úr öðrum hlutum verkefnisins verða valin framleiðsluferli „frumhönnuð“ (conceptual designed) og sú vinna lögð til grundvallar frummati á hagkvæmni framleiðslu álitlegra lífeldsneytistegunda hérlendis. Þessi gögn verða síðan kynnt fjárfestum í lok verkefnisins.


1. Umsókn til Tækniþróunarsjóðs - hér
2. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Umhverfisráðuneytið október 2010 - bls.33