31. janúar 2012

Lífeldsneyti sem jafngildir að orkuinnihaldi um 47% af bensínnotkun í landinu 2010 má framleiða úr hráefni af túnum sem eru ónotuð í dag.

Samkvæmt gögnum frá Jóni Guðmundssyni hjá Landbúnaðarháskóla Íslands eru um 50.000 hektarar túna ónotaðir í landinu í dag. Með ræktun á vallarfoxgrasi á þessum fjölda hektara mætti afla hráefnis til framleiðslu á lífeldsneyti svo nemi að orkuinnihaldi um 87,5 milljónum lítra af lífeldsneyti sem jafngildir um 47% af orkunotkun bensínbílaflotans í landinu á árinu 2010 eða um 28% af samanlögðum bruna á bensíni og dísilolíu í bílaflota landsmanna á árinu 2010 ( sjá útreikning að neðan)¹.

Athugið að hér er bara verið að skoða hvað hægt væri að gera með nýtingu á túnum sem standa ónotuð í dag. Fregnir herma jafnframt, að um 75% að ræktanlegu landi í landinu hafi þjóðin aldrei nýtt til ræktunar. Tæknilega getum við nýtt þetta land og fyrirstaðan hlutfallslega lítil miðað við margt af því sem viðhafa þyrfti í sambærilegum tilgangi víða um heim.

Gáum að því einnig að við framleiðslu á lífeldsneyti úr vallarfoxgrasi fellur til næringarríkt hrat (áburður) sem nýta má til frekari ræktunar á vallarfoxgrasi eða á öðrum orkuplöntum (repju) eða til uppgræðslu lands. Höfum það jafnftramt í huga að við þetta bætist möguleg nýting á öllum úrgangi sem til fellur frá heimilum og atvinnustarfsemi í landinu auk möguleika á að auka nýtingu á ræktanlegu landi sem aldrei hefur verið ræktað.

Já , við eru sannarlega ríkari en margir hafa gert sér grein fyrir. Rík af tækifærum til að tryggja farsæla framvindu þjóðarinnar í samgöngum. Eigum tækifæri til að  tryggja enn frekar orkuöryggi þjóðarinnar með umhverfisvænum og samfélagslega ábyrgum hætti. Það er okkar að nýta tækifærin á okkar vakt. Fréttin varpar ljósi á það sem hugsanlegt er að gera og tækniglega er framkvæmanlegt. Markmið rannsóknarverkefnisins Lífeldsneyti er m.a. að kanna fýsileika þess að stíga mismunandi skref á vegferð orkukerfisskipta í samgöngum.

Til nánari útskýringa:

Hektari er flatamálseining sem spannar 100x100m (10.000 m2) um tvo fótboltavelli. Samkvæmt kynningu Jóns Guðmundssonar við Landbúnaðarháskóla Íslands ( sjá kynningu JG að neðan) gæti ræktun á vallarfoxgrasi á Íslandi skilað um 6,5 tonnum af þurrefni á hektara ( 6,5 tdw/ha) eða orku sem svarar til 1,2-1,6 tonna af jarðefnaeldsneyti á hektara. Af einum hektara túns mætti sem sé framleiða lífeldsneyti sem jafngildir að orkuinnihaldi um 1750 lítrum af jarðefnaeldsneyti ef vallarfoxgras væri ræktað á túnunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkusetri í dag brenndi bílafloti okkar Íslendinga um 254 þúsund tonnum á jarðefnaeldsneyti á árinu 2010 (þar af 148 þús. tonn bensín og 106 þús. tonn olía) , eða um 317.500.000 L af jarðefnaeldsneyti (254.000.000 kg / 0,8kg/L) . Ofangreind framleiðsla á lífeldsneyti ( 87,5 milljón L) næmi því um 27,7% af samanlagðri eldsneytisnotkun (bensín og dísil) bílaflotans í landinu 2010 (87.500.000 L / 317.500.000 L = 0,277). Ef lífeldsneytið væri eingöngu nýtt í stað bensíns ( eðlisþyngd 0,738) næmi framleiðslan á lífeldsneyti um 47% af bensínnotkun í landinu á árinu 2010 - 148.000.000 kg af bensíni / 0,738 kg/L = 200.000.000 L af bensíni og deilum þeirri tölu í 94.850.949 L af lífeldsneyti (1400 kg/ha / 0,738 kg/L * 50.000 ha ) og fáum  94.850.949L / 200.000.000L = 0.474 eða 47,4%.

¹ Útreikningur
Þyngd á eldsneyti per hektara um 1,4 tonn (miðgildi) = 1400 kg/hektara
Eðlisþyngd jarðefnaeldsneytis er að meðaltali námundað í 0,8 kg/L.
Af því leiðir að 1,400 kg /ha deilt með 0,8kg/L = 1400/ 0,8 = 1750L/ha af jafngildi jarðefnaeldsneytis.
Fjöldi hektara af ónotuðum túnum í landinu = 50.000 ha
Lítrafjöldinn af jarðefnaeldsneyti sem unnt væri að draga úr notkun á með framleiðslu á lífeldsneyti úr hráefni af þessum túnum : 50.000 ha * 1750L/ha = 87.5 milljónir L 

Mikill fróðleikur og stoðefni:
Skýrsla nefndar um landnotkun - Athugun á notkun og varðveislu ræktanlegs lands - Febrúar 2010
Möguleikar í ræktun orkuplantna á Íslandi - Jón Guðmundsson Landbúnaðarháskóla Íslands

Til baka