03. febrúar 2012

Spennandi niðurstöður rannsókna á framleiðslugetu á LífEtanóli úr flóknum lífmassa í landinu vísa til tækifæra sem rannsaka þarf betur.

Verkefnið LífEtanól hefur staðið yfir síðustu þrjú ár og er nú lokið. Verkefnið var liður í samstarfi Háskólans á Akureyri og Mannvits um rannsóknir- og þróunarstarf í orkulíftækni. Í verkefninu voru notaðar hitakærar etanólframleiðandi bakteríur sem einangraðar voru úr hverum á Íslandi. Meginmarkmið verkefnisins var að nota slíkar bakteríur til þess að framleiða sk. annarrar kynslóðar etanól úr flóknum lífmassa eins og t.d. grasi, pappír og hálmi. Einnig voru áhrif mismunandi formeðhöndlunar, bæði efnfræðilegrar og líffræðilegrar, á nýtingu á etanólframleiðslu rannsakaðar.

Meginniðurstöður verkefnisins eru þær að nokkrir áhugaverðir hitakærir bakteríustofnar voru einangraðir og etanólframleiðslugeta þeirra rannsökuð til hlítar. Sérstaklega var einn stofn rannsakaður nákvæmlega, stofn Ak17, en hann tilheyrir ættkvísl Thermoanaerobacterium. Þessi hitakæra baktería reyndist hafa flest það til brunns að bera sem til þarf til að framleiða etanól úr flóknum lífmassa. Hann vex best við 60°C, brýtur niður flestar þær sykrur sem fyrir koma í flóknum (lignósellulósaríkum) lífmassa, þolir 3,2% etanólstyrk og hægt er að stýra etanólframleiðslunni með því að láta hann vaxa við ákveðnar umhverfisaðstæður. Framleiðsla stofnsins á nokkrum tegundum flókins lífmassa reyndist vera á bilinu 200 – 350 L á hvert tonn.

Í verkefninu var fullkomið tilraunakerfi kerfishannað og fjárfestingarkostnaður og rekstarkostnaður þess metinn, en uppsetning slíks kerfis er nauðsynleg fyrir frekari rannsóknir- og þróunarstarf. Kostnaður við byggingu 1 þús. tonn/ár tilraunaverksmiðju hefur verið metinn um 2 milljarðar kr. og fyrir 15 þús. tonn/ár verksmiðju um 12 milljarðar kr. Niðurstöður reiknilíkana eru að hægt er að fullnægja orkuþörf framleiðslunnar að a.m.k. 2/3 hlutum með nýtingu spillivarma frá jarðgufuvirkjunum eða iðnaði. Enn eru of margir þættir óvissir til að hægt sé að segja til um hagkvæmni lífetanólframleiðslu hérlendis með fullri vissu. Unnin hefur verið viðskiptaáætlun fyrir framhald verkefnisins sem kynnt verður við öflun fjármögnunar framhalds þess og nýrra samstarfsaðila.

LífEtanól - verkefnislok - sjá hér
Verkefnisstjóri: Jóhann Örlygsson, Háskólanum á Akureyir -  sjá hér

Til baka